Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur auglýst eftir nýjum seðlabankastjóra að því er fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag. Í ágúst rennur út annað fimm ára skipunartímabil Más Guðmundssonar seðlabankastjóra og má hann þá ekki sitja lengur í embætti lögum samkvæmt.

Umsóknarfrestur er til og með 25. mars næstkomandi en skipað verður í embættið frá og með 20. ágúst.

Í auglýsingunni segir að þriggja manna hæfnisnefnd verði skipuð til að fara yfir umsóknir. Einn nefndarmaður verður skipaður samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins, einn samkvæmt tilnefningu bankaráðs Seðlabanka Íslands og einn án tilnefningar og er hann formaður nefndarinnar.

Þá segir jafnframt að umsækjendur skuli hafa lokið háskólaprófi í hagfræði eða tengdum greinum og búa yfir víðtækri reynslu og þekkingu á fjármálastarfsemi og efnahags- og peningamálum. Einnig er gerð krafa um stjórnunarhæfileika og hæfni í mannlegum samskiptum.

„Ég mun væntanlega byrja á því að fara í gott frí,“ sagði Már í viðtali við Viðskiptablaðið í apríl í fyrra þegar hann var spurður að því hvað taki við þegar hann láti af embætti. „Við eru með þá reglu, aðstoðarseðlabankastjórinn [Arnór Sighvatsson] og ég, að annar okkar verður alltaf að vera ínáanlegur með stuttum fyrirvara og erum með þær skyldur að það eru margir fundir sem við þurfum að vera á báðir,“ sagði Már þá.