Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, hefur boðað Katrínu Jakobsdóttur, formann VG til fundar við sig á Bessastöðum í dag klukkan 17. Óvíst er hvort forsetinn gefi Katrínu áframhaldandi umboð til stjórnarmyndunar eða veiti öðrum það.

Katrín hefur sagt í viðtali við RÚV að hún færi ekki strax til Bessastaða og að hún myndi halda áfram að líta í kringum sig. Þó hafði forsetinn sagt þegar hann veitti Katrínu umboðið að hann væri að veita það til myndunar á þessari tilteknu stjórn þ.e. fjögurra flokka stjórn VG, Framsóknar, Samfylkingar og Pírata.

Greint var frá því í dag að slitnað hafi upp úr stjórnarmyndunarviðræðum flokkanna fjögurra og að Framsókn teldi sig ekki geta treyst á eins manns meirihluta í ríkisstjórn með Pírötum.