*

miðvikudagur, 29. janúar 2020
Innlent 13. september 2017 14:19

Katrín fagnar hærri eldsneytisgjöldum

Formaður VG segir að flokkurinn hafi lagt til að gengið yrði lengra en Parísarsamkomulagið. Formaður FÍB segir að verið sé að refsa þeim sem búi í dreifbýli.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna segir hækkanir á eldsneytisgjöldum jákvæðar því um sé að ræða umhverfisskatta.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í morgun hefur Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB sagt að kostnaðurinn aukist um 42 þúsund krónur á hverja fjölskyldu með dísilbíl, en Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins segir hækkunina koma sér verst fyrir íbúa úti á landi.

„Við höfum lagt til að Ísland gangi lengra en Parísarsamkomulagið og stefnt verði að kolefnishlutlausu Íslandi,“ segir Katrín í Morgunblaðinu. „Skattastefnan þarf að spila með því markmiði og það er löngu tímabært að sú stefna liggi fyrir.“

Heimsmet í nýjum sköttum

Runólfur segir að ásamt með tillögum um gjaldtöku á ákveðnum leiðum til að byggja upp vegakerfið til og frá Höfuðborgarsvæðinu sem Jón Gunnarsson samgönguráðherra hefur komið með séu stjórnvöld að „setja heimsmet í nýjum sköttum á eldsneyti,“ að því er fram kemur á mbl.is.

„Ég man ekki þá tíð að stjórnvöld hafi á einu bretti hækkað skatta á eldsneyti jafn mikið og nú ver verið að boða,“ segir Runólfur og vísar í hækkanirnar í núverandi fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár sem þýði að viðbættum virðisaukaskatti 21 krónu á líterinn af díselolíu og 9 krónur á bensín.

„Ef við tökum bara venjulega notkun þá getur þetta verið aukin útgjöld um 30 til 60 þúsund krónur fyrir hverja fjölskyldu, sem á einn bíl. Vegna slíkra útgjalda þarf að vinna sér inn um það bil 50 til 90 þúsund krónur í tekjur til að eiga fyrir hækkuninni.“

Hækkar vísitölu neysluverðs

Segir Runólfur að álögin á eldsneyti hafi þegar verið með því sem hæsta sem gerist meðal Evrópuríkja en nú tylli landið sér í eitt af toppsætunum. Vísar hann jafnframt til áhrifa af hækkuninni á vísiitölu neysluverðs, þar sem eldsneytisverð vegur hátt. Tekjuaukningin fyrir ríkissjóðs er áætluð 6 milljarðar króna, á sama tíma og gert er ráð fyrir 44 milljarða afgangi.

Rnólfur segir að hækkunin á díselolíu komi sérstaklega aftan að þeim sem fyrir stuttu síðan létu undan hvata til að kaupa frekar díselbíla, t.a.m. með hærri skattlagningu hingað til á bensínbíla en um síðustu áramót var álagningin hækkuð meira á þá en díselbílana.

„Það er verið að refsa þeim sem búa í dreifbýli,“ segir Runólfur sem vísar í að díselbílar séu eyðslugrennri á lengri akstursleiðum. „Sérstaklega þeim sem þurfa að sækja grunnþjónustu um langan veg.“