Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sem hefur nú í höndum sér stjórnarmyndunarumboð, fundar á morgun með fulltrúum fjögurra stjórnmálaflokka; Pírata, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingar. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Fundurinn fer fram í fundarherbergi fjárlaganefndar Alþingis og byrjar klukkan 13. Gert er ráð fyrir að fundurinn standi yfir í rúmar tvær klukkustundir. Eftir það hefst þingflokksfundur Vinstri grænna.

Haft er eftir Katrínu í frétt Mbl.is að fundurinn verði nokkurs konar könnunarfundur um hvort að hægt sé að fara í formlegt stjórnarmyndunarsamstarf. Hún hyggst fara yfir hvort að það sé grundvöllur fyrir málefnasamstarfi flokkanna fjögurra.