Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, munu hittast á fundi í tengslum við heimsókn hans til Íslands, eftir allt saman en eins og mikið hefur verið fjallað um tók Katrín fund verkalýðsfélaga norðurlandanna fram yfir fund með varaforsetanum.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma kemur Pence til landsins 3. september, en margir hafa orðið til þess að gagnrýna ákvörðun hennar, þar á meðal formenn þingflokka , um að breyta ekki ferðaáætlunum sínum í tilefni komu fulltrúa helstu bandalagsþjóðar Íslendinga.

Fundurinn mun eiga sér stað í húsi Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli að kvöldi 4. september þegar forsætisráðherra kemur til landsins af fundum í Svíþjóð og Danmörku, áður en Pence mun halda af stað í heimsóknir sínar til Írlands og Bretlands.