Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, sagði á Alþingi í dag að þótt VG hafi stundum andæft stóriðjuframkvæmdum hafi flokkurinn aldrei mótmælt öllum iðnaðarframkvæmdum. Kom þetta fram í svari hennar við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um uppbyggingu kísilvers á Bakka við Húsavík, en hann spurði Katrínu hvort hún væri sammála því að fagna beri uppbyggingu orkufreks iðnaðar þar.

Katrín sagði að sátt sé um að byggja upp atvinnulíf á fjölbreyttum grunni, sumir hafi horft til einsleitari lausna, en hún vilji ho0rfa til þekkingar og hugvits. Framkvæmdirnar á Bakka komi til með að skapa tvisvar til þrisvar sinnum fleiri störf en álver. Vissulega verði ákveðin umhverfisáhrif af framkvæmdinni, þar á meðal nokkur losun gróðurhúsalofttegunda og því þurfi að kaupa losunarheimildir. Fjölbreytni skipti máli í atvinnumálum og iðnaður sé hluti af þeirri fjölbreytni.