Samkvæmt skoðanakönnun, sem MMR gerði fyrir Stundina, er Katrín Jakobsdóttir sú sem flestir geta hugsað sér að kjósa til embættis forseta Íslands, af þeim sem þegar hafa verið til umræðu í því samhengi.

Alls sögðu 37,5% svarenda að það kæmi til greina að kjósa hana, 23% svarenda sögðust vera líklegastir til að kjósa hana. Katrín segir við Stundina að hún hafi ekki ætlað sé að fara í forsetaframboð, en að staðan hafi breyst eftir að hún hafi fengið fleiri áskoranir um framboð; hún velti því nú fyrir sér að gefa kost á sér í forsetakjöri.

Aðrir, sem mælast með mikinn stuðning í skoðanakönnuninni, eru Davíð Oddsson, Stefán Jón Hafstein, Salvör Nordal, Ólafur Jóhann Ólafsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Andri Snær Magnason. Þau reyndust öll vera með 7-8% stuðning þegar spurt var hvaða einn fólk vildi helst kjósa sem forseta. 27 möguleg forsetaefni voru nefnd í könnuninni, sem liðlega 900 manns tóku þátt í.