Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, sagði á fundi VÍB og Kauphallarinnar að engin ástæða væri til að fara í frekari skattahækkanir. Fundurinn var haldinn í dag og sátu fulltrúar sex stærstu stjórnmálaflokkanna fyrir svörum.

Hún sagði að frekar ætti að fara í skattalækkanir á lág- og millitekjufólk ef svigrúm væri til þess. Þá væri eðlilegt að lækka tryggingagjaldið.

Hún varði þær breytingar sem ríkisstjórn VG og Samfylkingar gerði á skattkerfinu og sagði að þrepaskipt skattkerfi væri engin séríslensk uppfinning Indriða Þorláksson, heldur væri slíkt kerfi afar algengt í nágrannaríkjum okkar. Með þessum breytingum hefði hinum tekjulægstu verið hlíft fyrir áhrifum hrunsins.