Evrópumálin hafa reynst Vinstri grænum nokkuð erfið síðastliðin misseri og mikið deilt um aðildarumsókn Íslands innan raða VG.

Í ítarlegur viðtali við Katrínu Jakobsdóttur, menntamálaráðherra og varaformann VG, spyr blaðamaður Viðskiptablaðsins Katrínu hvort flokkurinn sé ekki klofinn út af þessu máli.

„Evrópusambandið hefur verið flokknum mjög erfitt af því að við hófum þetta ríkisstjórnarsamstarf sem byggði meðal annars á því að tillaga um að sækja um aðild yrði lögð fyrir þingið,“ svarar Katrín.

„Mörg okkar byggðum afstöðu okkar á landsfundarályktunum flokksins um að þetta ætti að fara í mat þjóðarinnar. Aðrir hafa hins vegar sagt að ef við erum andsnúin aðild þá eigum við ekki að fara í þessa vegferð. Þar liggja átökin.“

Katrín segir þó að flokksmenn VG hafi margir hverjir ólíka sýn á ESB og menn séu á móti aðild Íslands af mörgum ástæðum. Það einkenni líka afstöðu manna innan flokksins.

En það virðist sem stærstur hluti flokksins sé á móti því að sækja um aðild, hvernig gengur þá upp að forysta flokksins skuli taka þátt í því að sækja um aðild?

„Stefna flokksins er að vera á móti aðild og á meðal flokksfélaga er almennt eindregin andstaða við aðild. Sú skoðun er hins vegar ríkjandi að við ein eigum ekki að ráða þessu og þess vegna þurfi að koma fram samningur sem hægt er að leggja í hendur þjóðarinnar. Það byggir á því að þetta mál hefur verið í stanslausri umræðu hér á landi síðustu ár og þess vegna er spurning hvort ekki sé kominn tími til að fá botn í það.“

Sástu það fyrir þér að VG myndi leiða hluta af þeirri vegferð?

„Ég sá það ekki fyrir mér en ég hef ekkert skipt um skoðun á Evrópusambandinu og afstöðu minni til þess,“ segir Katrín.

„Það er ekkert sem sannfærir mig um að við eigum betur heima innan þess. Þetta er hins vegar ekki algjörlega svarthvítt mál, heldur má segja að þetta sé grátt mál. Fyrir sumum er þetta einungis hagsmunamál, t.d. hvað varðar gjaldmiðil, sjávarútveg og fleira. Fyrir mér er þetta lýðræðismál og snýst um hver lýðræðisþróun sambandsins verður. Þrátt fyrir ýmsar tilraunir til úrbóta er mikill lýðræðishalli innan ESB, enda tel ég að svona samband geti ekki í eðli sínu verið mjög lýðræðislegt. Á þessum forsendum fyrst og fremst er ég á móti því að ganga í Evrópusambandið.“

En nú er ekki eins og Samfylkingin hafi haft marga flokka að velja úr þegar kom að ríkisstjórnarsamstarfi vorið 2009. Kom aldrei til greina að segja bara þvert nei við þessu máli?

„Ég tel að við höfum þá gert ágætlega grein fyrir okkar afstöðu í þessu máli en þessi ríkisstjórn hefði ekki orðið til nema fyrir þetta. Við mátum það þannig þá. Ekki má heldur gleyma að þeir þrír flokkar sem lýst höfðu yfir skýrum vilja til að sækja um aðild fengu meirihluta þingsæta í kosningunum,“ segir Katrín.

Og þið hafið fyrir vikið verið gagnrýnd fyrir að láta Samfylkinguna kúga ykkur til hlýðni, skýtur blaðamaður inn í.

„Við litum ekki á það sem kúgun þó að því hafi oft verið haldið fram. Þegar atkvæðagreiðsla um málið fór fram á þingi var mikið talað um svipuhögg og handjárn. En þetta er hluti af því að mynda ríkisstjórn. Við töldum rökin sterkari með því að gefa þetta mál eftir og leggja það síðan í dóm þjóðarinnar.“

Aðspurð um almennt viðhorf flokksfélaga VG til málsins nú segir Katrín að andstaðan við aðild sé meiri á landsbyggðinni en höfuðborgarsvæðinu. Nýlega hafi þó verið lögð mikil áhersla á það við forystuna að hún eigi að vera öflugur talsmaður gegn aðild og það sé vissulega nokkuð sem forysta flokksins muni taka til sín.

_____________________________

Nánar er rætt við Katrínu í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .