Katrín Jakobsdóttir,  formaður Vinstri grænna, býður sig ekki fram til forseta. Hún tilkynnti þetta í stöðuuppfærslu á Facebook rétt í þessu.

Hún segir að fjölmargir hafi haft samband við hana að undanförnu og hvatt hana til að bjóða sig fram. Hún hafi því ekki getað annað en hugleitt málið alvarlega í nokkra daga.

Hún segir að hún hafi líka tekið eftir gagnrýni frá einstaka mönnum sem virðist óttast framboð hennar meira en góðu hófi gegnir og að þeir ráði ekki almennilega við þá hugmynd að konur taki eigin ákvarðanir.

Katrín segir að óháð þessum viðbrögðum hafi hún tekið þá ákvörðun að skipta ekki um skoðun og ætli ekki að bjóða sig fram til forseta Íslands. Hún segist vona að kosningabaráttan verði málefnaleg og innihaldsrík og að í þetta embætti veljist góður þjónn þjóðarinnar sem beiti sér fyrir mannréttindum og lýðræðisumbótum, vernd náttúru og umhverfis og stöðu íslenskrar tungu.