Viðskiptablaðið hefur margoft fjallað um tónlistarhúsið sem nú rís við Reykjavíkurhöfn og þann gífurlega kostnað sem bæði byggingu og rekstri hússins fylgir. Kostnaður við bygginguna kemur allur úr vösum skattgreiðenda sem og hluti rekstrarkostnaðar í gegnum leigu Sinfóníuhljómsveitar Íslands og styrktarsamning við Íslensku óperuna.

Menntamálaráðherra ber, ásamt borgarstjóranum í Reykjavík, stjórnsýslulega ábyrgð á uppbyggingu hússins og það liggur því beint við að spyrja hvort húsið sé ekki orðið allt of dýrt og hvort ekki sé rétt að hætta við bygginguna.

„Við hefðum aldrei farið af stað með framkvæmd sem þessa eftir hrun en þetta var eitt af fyrstu verkefnunum sem komu á mitt borð þegar ég tók við sem ráðherra,“ segir Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra í viðtali við Viðskiptablaðið.

„Við mátum það svo að það væru þrír möguleikar í stöðunni; að hætta alfarið við og rífa það sem þegar var komið, að fresta verkefninu um tiltekinn tíma með tilheyrandi kostnaði við það, eða halda verkefninu áfram. Mat okkar sýndi að minni kostnaður var fólginn í því að halda áfram en að fresta byggingunni um tíma.“

Þá bætir Katrín því við að í ljósi þess hversu mikið var búið að berjast fyrir tónlistarhúsinu hefðu það ekki verið góð skilaboð að rífa húsið eins og sumir hafi lagt til, enda séu miklir möguleikar fólgnir í húsinu. Það gefi þó augaleið að húsið yrði mun minna ef farið væri af stað í framkvæmdina nú.

Aðspurð um rekstraráætlanir fyrir tónlistarhúsið segir Katrín að vissulega sé unnið að endurskoðun þeirra og að leitað verði hagkvæmari leiða við bæði lokafrágang á húsinu sem og rekstur þess í framtíðinni.

„Við þurfum að endurhugsa tilganginn með þessu húsi,“ segir Katrín.

„Þetta var ekki auðveld ákvörðun en þó skynsamlegust til lengri tíma. Og því má ekki gleyma að þarna voru um 600 manns í vinnu við byggingu hússins, það hafði auðvitað sín áhrif að þarna voru mörg störf í húfi. Mér fannst það líka snúast um samfélagslega ákvörðun. Ég veit ekki hvort það hefðu verið góð skilaboð að hætta við og pakka í vörn.“

Hefðu það ekki verið góð skilaboð til skattgreiðenda?

„Við jukum ekki við fjárhagslegar skuldbindingar í verkefninu og það skiptir verulegu máli. Við sækjum þetta fjármagn ekki úr rekstri ríkisins heldur er það sótt úr stofnkostnaði. Það hefur þó vissulega áhrif á aðrar stofnkostnaðarframkvæmdir þannig að það er auðvitað alltaf spurning. En við höfum hins vegar ekki verið að byggja mikið af öðrum nýjum húsum þannig að við ákváðum að úr því að þetta var komið þetta langt væri ekki gott að hætta við. Það hefði skapað enn meiri kostnað að bíða.“

Katrín segir að verkefnið sé ekki einfalt og kannski verði hægt að meta það í sögulegu ljósi síðar meir. Þannig hafi margir verið ósáttir þegar Þjóðleikhúsið var byggt á sínum tíma.

„Auðvitað vona ég að fólk eigi eftir að vera ánægt með þetta hús. Þetta er ekki bara stór og dýr framkvæmd heldur er þetta líka menningarhús og þau eru oft umdeildari en önnur.“

_____________________________

Nánar er rætt við Katrínu í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .