Rekstararáætlanir Hörpu voru óraunhæfar og þær hefði þurft að endurskoða. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. Þetta kemur fram í viðtali við Katrínu í Fréttablaðinu í dag.

Þar segir hún meðal annars að þó margir hafi haft áhuyggjur á tónlistar- og menningarþættinum í rekstrinum hafi það verið aðrir þættir sem kom á daginn að þarf að skoða. Þar vísar hún meðal annars til ráðstefnuhalds. Hún segir slæma afkomu fyrsta rekstrarárs þó ekki breyta þeirri skoðun sinni að rétt hafi verið að ljúka byggingu hússins.

Hún segir eigendur hússins, ríki og Reykjavíkurborg, þurfa að taka ábyrgð á lausn vandans. Þar séu leigusamningar við óperuna og sinfóníuna ekki undarþegnir. „Við vissum að þetta er áhættusamur rekstur og það þarf ekki annað en að horfa til annarra Norðurlanda, sem hafa verið í svipuðum framkvæmdum. Þetta er alls staðar áhættusamur rekstur.“

Katrín gagnrýnir skipulagið í rekstri hússins. „Hins vegar má ekki gleyma því að ef opinberir aðilar hefðu reist Hörpu hefði húsið líklega orðið miklu minna. Það var hins vegar ákveðið að fara af stað á sínum tíma í samstarfi einkaaðila og opinberra aðila með fulltingi allra flokka, ýmist í borgarstjórn eða ríkisstjórn, og verkefnið var byggt upp með ákveðinn strúktúr sem er meira í ætt við einkarekstur en opinberan rekstur. Ríki og borg ákveða síðan að ljúka byggingunni og hafa hana ekki hálfkláraða og segja upp 600 manns í byggingariðnaði sem var að hrynja, fyrir utan mikilvægi þess að byggja hér tónlistarhús, sem hafði lengi verið draumur íslenskra tónlistarmanna.“