Katrín Jakobsdóttir er sá stjórnmálaleiðtogi sem flestir telja vera heiðarlegan, gæddan persónutöfrum og standa við eigin sannfæringu, meðal þeirra sem tóku afstöðu í könnun MMR á áliti á stjórnmálaleiðtogum. Ólafur Ragnar Grímsson var hins vegar helst talinn vera fæddur leiðtogi og vinna vel undir álagi. Könnunin var framkvæmd 30. mars til 8. apríl. Spurt var um átta stjórnmálaleiðtoga.

47% svarenda sögðu Katrínu vera heiðarlega og 48% sögðu hana standa við eigin sannfæringu. 30% sögðu Ólaf Ragnar vera fæddan leiðtoga og 23% sögðu hann vinna vel undir álagi. Einungis 4% svarenda sögðust telja Guðmund Steingrímsson skila árangri og 6% sögust telja hann vinna vel undir álagi. 5% sögðust telja Sigmund Davíð Gunnlaugsson virða skoðanir annarra og 8% sögðust telja Bjarna Benediktsson standa vörð um hagsmuni almennings.

Spurt var: „Ef þú hugsar um eftirtalda einstaklinga. Hvaða kostum, af eftirfarandi, finnst þér hver þeirra búa yfir? - merktu við alla þá kosti sem þér finnst að eigi við um hvern og einn einstakling?" 80,7% tóku afstöðu til spurningarinnar að hluta til eða í heild. Heildarfjöldi svarenda var 1060. Vikmörk miðað við 1000 svarendur eru allt að 3,1%.