„Þá er konan bara orðin fyrrverandi ráðherra,“ skrifar Katrín Jakobsdóttir. Hún sat sinn síðasta ríkisstjórnarfund sem ráðherra með Ólafi Ragnari Grímssyni forseta á Bessastöðum í dag. Ný ríkisstjórn með Sigmund Davíð Gunnlaugsson í forsæti tók svo við eftir hádegið.

Katrín, sem býr í nágrenni Alþingishússins í vesturbænum, hefur sem ráðherra haft einkabílsstjóra á vegum Alþingis. Á Facebook-síðu sinni segist hún nú þurfa að skoða ferðir strætó enda þurfi hún að fara í barnaafmæli og hefur þar á orði að sér finnist leiðarvísar strætó orðnir flóknir. Katrín settist í ráðherrastól í febrúar árið 2009 og steig upp úr honum í dag.

Nokkrar umræður spunnust um vanda Katrínar og mæltu nokkrir með því að hún nái sér í app sem hjálpar henni að fylgjast með strætóferðum í snjallsíma í rauntíma.