Bætt lánshæfismat ríkissjóðs hjá Fitch gerir ríkissjóði auðveldara en áður að sækja sér lánsfjármagn á erlendum mörkuðum. Bloomberg-fréttaveitan hefur eftir Katrínu Júlíusdóttur fjármálaráðherra að stjórnvöld séu ætíð að leita eftir hagstæðustu fjármögnunni. Kjörin batni með nýju lánshæfismati, að hennar sögn.

Í frétt Bloomberg er rifjað upp að stjórnvöld hafi í tvígang frá hruni sótt sér lánsfjármagn á erlendum mörkuðum, samtals tvo milljarða dali.

Matsfyrirtækið Fitch hækkaði lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs um einn flokk í gær, úr BBB- í BBB og segir horfur stöðugar. Þetta var önnur hækkun erlends matsfyrirtækis á viku og á aðeins matsfyrirtækið Standard & Poor's eftir að birta nýtt mat sitt á stöðu mála hér eftir að EFTA-dómstóllinn sýknaði stjórnvöld í Icesave-málinu.

Fitch bendir reyndar á í forsendum sínum fyrir einkunnagjöfinni að enn eigi eftir að afnema gjaldeyrishöft hér og séu þau helsta hindrunin sem erlendir fjárfestar setji fyrir sig. Fjármálaráðherra segir hins vegar að betri einkunn matsfyrirtækja hjálpi til við að afnema höftin. Nú sé hægt að draga upp mismunandi sviðsmyndir af því hvernig hægt sé að afnema höftin án þess að raska fjármálalegum stöðugleika.