Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, er nýr varaformaður Samfylkingarinnar og tekur við af Degi B. Eggertssyni, formanni borgarráðs Reykjavíkur.

Þetta var tilkynnt rétt í þessu á landsfundi Samfylkingarinnar en Katrín bar sigur úr býtum í baráttu við Oddný G. Harðardóttur, þingflokksformann Samfylkingarinnar og fv. ráðherra.

Katrín hlaut 308 atkvæði eða um 59% atkvæða. Oddný fékk 214 atkvæði eða 41%. Alls greiddu 524 flokksfélagar Samfylkingarinnar atkvæði en kjörið fór fram á milli kl. 15 og 16 í dag.

Katrín hefur setið á þingi frá árinu 2003 sem þingmaður suðvesturkjördæmis. Hún var iðnaðarráðherra á árunum 2009-2012, eða þangað til að hún fór í fæðingarorlof í febrúar í fyrra. Hún tók síðan við sem fjármálaráðherra þann 1. október sl. af Oddnýju.