Katrín Júlíusdóttir, alþingismaður hefur ákveðið að bjóða sig fram í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi sem fram fer dagana 12.-14. mars n.k.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Katrínu en í prófkjöri Samfylkingarinnar 2006 bauð hún sig fram í 2.sæti listans í kjördæminu.

„Í störfum mínum á Alþingi hef ég lagt mikla áherslu á allt umhverfi fjölskyldna og heimilanna í landinu. Aldrei hefur það verið mikilvægara en nú að hlú að barnafjölskyldum,“ segir Katrín í tilkynningunni.

„Í þeirri uppbyggingu sem framundan er þurfum við að setja þarfir og umbúnað heimilanna í fyrsta sæti. Leysa þarf erfiða skuldabyrði heimilanna og byggja upp fjölbreytt atvinnutækifæri.  Gjaldmiðilsmálin þarf að leysa hratt og vel. Lykillinn að því er upptaka evru með aðild að Evrópusambandinu. Það er raunhæf framtíðarlausn fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.“

Katrín er 34 ára gömul og býr með 10 ára syni sínum í Kópavogi þar sem hún er alin upp. Katrín hefur verið Alþingismaður frá því í 2003 og er nú formaður iðnaðarnefndar Alþingis og formaður Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA/EES.

Hún starfaði sem innkaupa- og framkvæmdastjóri heildverslunar sem rak nokkrar barnafataverslanir og var framkvæmdastjóri SHÍ. Katrín var verkefnastjóri og ráðgjafi hjá hugbúnaðarfyrirtæki þegar hún tók sæti á Alþingi.