Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, kannast ekki við að unnið sé á fullu að afnámi gjaldeyrishafta í samræmi við áætlun. Enda hafi engin áætlun verið lögð fram um slíkt í samráðshópi um afnám hafta. Hún sagði á Alþingi í dag búið að halda þrjá fundi í samráðshópnum en ekki búið að kynna þar áætlunina.

Bjarni Benediktsson , formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, sagði á fundi með samflokksfólki í Valhöll í hádeginu í dag að unnið væri eftir áætlun um afnám gjaldeyrishaft. Hann var bjartsýnn á það. „Það eru jákvæð teikn á lofti hvað varðar afnám gjaldeyrishafta þar sem áætlun sem við virkjuðum í haust er í fullum gangi,“ sagði hann orðrétt í ræðunni.

Við þetta kannast Katrín ekki enda hafi samráðshópurinn ekki fengið neina kynningu á slíkuk. Hún sagði á Alþingi Bjarna setja fyrir sig að það eina sem hindri vinnuna sé skortur á samráði því stjórnarandstaðan mæti ekki á fundi. Því vísaði Katrín á bug.

„Það er mjög holur hljómur í öllu þessu samráðshjali,“ sagði Katrín.

VB Sjónvarp ræddi jafnframt við Bjarna eftir fundinn.