Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, óskaði í morgun eftir fundi i umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis til þess að ræða innbrot inn á vefsíðu Vodafone og leka á gögnum.

Katrín óskar eftir því að fulltrúi Póst- og fjarskiptastofnunar, Ríkislögreglustjóra og innanríkisráðuneytis mæti á fundinn. Þá vill hún að fulltrúi Vodafone mæti á fundinn og hugsanlega annarra fjarskiptafyrirtækja. Katrín vill fara yfir málin og fá upplýsingar um hvort nægjanlegt eftirlit hins opinbera sé með að lögum sé fylgt.

Ómar Svavarsson, forstjóri Vodafone, hefur viðurkennt að reglum um eyðingu gagna hafi ekki verið fylgt. Í tilkynningu sem send var Kauphöll Íslands í morgun og birt í fjölmiðlum í gær er lögð áhersla á að ekki hafi verið brotist inn í fjarskiptakerfi Vodafone heldur á vefsíðuna.