Katrín Pétursdóttir er forstjóri Lýsis hf. og hefur gegnt því hlutverki frá því að hún keypti fyrirtækið árið 1999. Hún hefur í gegnum árin setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og félagasamtaka. Þar má nefna Viðskiptaráð Íslands, Háskólann í Reykjavík, Bakkavör, Glitni og Ísal. Nýlega tók hún jafnframt sæti í stjórn Samtaka iðnaðarins, en á þeim vettvangi segir hún mikilvægt að laga það regluverk sem sé í kringum eftirlitsiðnað á Íslandi.

„Ég vil beita mér fyrir því að ekki séu settar of íþyngjandi kröfur á íslensk fyrirtæki umfram samkeppnisaðila erlendis. Mér finnst það skjóta skökku við þegar fyrirtæki sem hefur jafnmargar vottanir og Lýsi hf. sé það samt tekið út af einhverjum átta aðilum hér á Íslandi.“

Hún segir eftirlitsmagnið hér á landi fela í sér aðgangshindranir fyrir félög sem reyna að koma sér fyrir á markaðnum. „Að hluta til finnst mér eftirlitsiðnaðurinn hér taka upp reglugerðir óritskoðað. Við erum auðvitað örríki og ættum að hafa fullan rétt til þess að aðlaga slíkt regluverk að aðstæðunum hér. En mér finnst lítið unnið með það og það er gengið of langt í því að setja fyrirtækjunum íþyngjandi reglur.“

Katrín segir að einfalda megi kerfið. Það sé orðið of dýrt og reksturinn í kringum það sé mikill. „Það er orðið tímabært að tekið sé á þessu. Bretarnir hafa tekið upp kerfi sem felur í sér að ef reglugerð er innleidd þarf að koma tveimur í burtu á móti. Svo það eru svo sem margir að reyna að einfalda þetta.“

Nánar er spjallað við Katrínu í Áhrifakonum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .