„Það skiptir mál að við getum teiknað upp sviðsmyndir að því sem mun gerast við ákveðnar aðstæður áður en ákvarðanir verða teknar,“ segir Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra. Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun fór Katrín yfir vinnu ráðuneytisins undanfarna mánuði sem felur í sér kortlagningu á þrotabúum föllnu bankanna og áhrifum á fjármálastöðugleika. Undir eru kvikar krónur, greiðslur inn á skuldabréf í eigu erlendra aðila, skilyrta skuldabréf Landsbankans og nauðasamningar föllnu bankanna.

„Stærsta einstaka málið tengt fjármagnshöftunum eru þessi þrotabú. Við höfum verið að kortleggja stöðuna mjög vel, bæði með tilliti til fjármálastöðugleika og stærðar eftir eðli fjármagnsins. Síðan höfum við kortlagt mjög vel hina lagalegu stöðu því það skiptir máli að við getum teiknað upp sviðsmyndir af því sem mun gerast við ákveðnar aðstæður áður en ákvarðanir verða teknar,“ segir hún í samtali við vb.is.

Undanþágu í höndum Seðlabanka og stýrinefndar

Ráðherra segir að hún hafi í nóvember í fyrra virkjað stýrinefnd um losun fjármagnshafta sem hún leiði. Á milli funda hennar sé virk samráðsnefnd með fulltrúa Seðlabankans, Fjármálaeftirlits, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis og fleiri. Undanþágur frá gjaldeyrishöftum verða ekki teknar nema í samráði við nefndina þótt samkvæmt lögum sé undanþáguákvörðun í höndum Seðlabankans.

„Þegar búið verður að kortleggja málið verður hægt að teikna upp sviðsmyndir. Við erum komin með býsna góða mynd af þessu. En þessi kortlagning er undirstaða allra ákvarðana,“ segir Katrín Júlíusdóttir.