Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hyggst skipa sjö manna nefnd til að vinna að endurbótum á löggjöf um tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsi á grundvelli hugmynda um að Ísland skapi sér lagalega sérstöðu varðandi vernd þessa frelsis.

Meðal þeirra laga sem nefndin á að fara yfir eru lög um ærumeiðingar og hatursáróður, ábyrgð hýsingaraðila, rafræn viðskipti og afnám gagnageymdar. Verður nefndin skipuð fulltrúum ráðuneyta sem fara með framkvæmd viðkomandi löggjafar auk annars kunnáttufólks segir í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu, en málið var kynnt á fundi ríkisstjórnarinnar í dag.

Verkefni nefndarinnar verður fjórþætt segir í tilkynningunni:

  • Í fyrsta lagi að fara yfir þau frumvörp sem urðu til á vettvangi stýrihóps mennta- og menningarmálaráðherra sem skipaður var í kjölfar þingsályktunar nr. 23/138 um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Þau frumvörp lutu að ærumeiðingum, afnámi svokallaðrar gagnageymdar á grundvelli fjarskiptalaga, ábyrgð hýsingaraðila, sbr. lög um rafræn viðskipti, og hatursáróðri.
  • Í öðru lagi að taka til skoðunar fyrirliggjandi tillögur er lúta að tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna og eftir atvikum skyldu þeirra til að greina frá lögbrotum eða brotum á siðareglum sem þeir verða áskynja um í starfi.
  • Í þriðja lagi að fara yfir gildandi upplýsingalög í ljósi þróunar á alþjóðavettvangi og framkvæmdar laganna og meta hvort þörf sé á lagabreytingum. Í því sambandi verði kannað hvort fullgilding samnings Evrópuráðsins um aðgang að opinberum gögnum kalli á lagabreytingar hér á landi. Þá verði lagt mat á erindi sem forsætisráðuneytinu hafa borist á undanförnum árum varðandi endurskoðun laganna og önnur atriði sem sérstaklega hefur reynt á í framkvæmd. Má nefna undanþágur vegna gagna er lúta að lögfræðiráðgjöf varðandi málshöfðun gegn opinberum aðilum, gögn er varða útboð eða val á viðsemjendum í ljósi samkeppnisréttar og fyrirkomulag varðandi undanþágur frá gildissviði laganna.
  • Í fjórða lagi að meta hverjar aðrar lagabreytingar kunni að vera æskilegar á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis.

Nefndinni er ætlað að skila tillögum um fyrri tvö atriðin 1. október næstkomandi og síðari tvö 1. mars 2019.