Stafræna auglýsingastofan Sahara hefur tekið saman ýmsar áhugaverðar upplýsingar um virkni stjórnmálamanna og -flokka á samfélagsmiðlunum Facebook, Instagram og Twitter í aðdraganda kosninga. Þar má m.a. annars sjá að frá því í byrjun ágúst hefur Flokkur fólksins eytt lang mest í auglýsingar á Instagram og Facebook, eða alls 6,6 milljónum króna.

Þar á eftir kemur Samfylkingin með 4,2 milljónir króna, næst Miðflokkurinn með 3,8 milljónir, svo Sjálfstæðisflokkurinn með 3,6 milljónir og Framsókn með 2 milljónir. Þá hefur Viðreisn hefur eytt 1,4 milljónum í auglýsingar á samfélagsmiðlum, Vinstri Græn 1,3 milljónum, Sósíalistaflokkurinn 1,1 milljón, Píratar 492 þúsund krónum og loks Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn 270 þúsund krónum.

Sjálfstæðisflokkurinn stærstur á samfélagsmiðlum

Hvað fjölda fylgjenda flokkanna á samfélagsmiðlum varðar má sjá að Sjálfstæðisflokkurinn er með stærsta fylgjendahópinn, tæplega 23 þúsund manns. Píratar eru með næst stærsta fylgjendahópinn, eða ríflega 18 þúsund manns. Þar á eftir kemur Viðreisn með tæplega 13 þúsund fylgjendur, Vinstri Græn og Framsókn með tæplega 11 þúsund, Miðflokkurinn með 7 þúsund, Flokkur fólksins með tæplega 6 þúsund, Sósíalistar með tæplega 5 þúsund og loks Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn með 494 fylgjendur.

Forsætisráðherra lang vinsælust

Þegar skoðaður er fylgjendahópur stjórnmálamanna á samfélagsmiðlum má sjá að Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri Grænna, er með lang stærsta fylgjendahópinn á öllum miðlunum þremur, Facebook, Instagram og Twitter. Katrín er með ríflega 24 þúsund fylgjendur á Facebook, ríflega 19 þúsund á Instagram og tæplega 37 þúsund á Twitter.

Yfirburðir Katrínar á Twitter eru einkar athyglisverðir, þar sem að næst vinsælasti íslenski stjórnmálamaðurinn á Twitter, dómsmálaráðherrann Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, er með tæplega 11 þúsund fylgjendur. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, skipar svo þriðja sætið með ríflega 8 þúsund fylgjendur. Katrín er þ.a.l. með ríflega þrefalt fleiri fylgjendur en næst vinsælasti stjórnmálamaður landsins á Twitter.

Samtals er Katrín með 80.211 fylgjendur á miðlunum þremur og er samanlagður fylgjendahópur hennar ríflega tvisvar sinnum stærri en fylgjendahópur Áslaugar Örnu, sem er með næst flesta fylgjendur, sem eru samtals 38.570. Samanlagður fylgjendahópur Bjarna samanstendur af 30.600 fylgjendum.

Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um ofangreint, auk fleira efnis, inni á heimasíðu Sahara .