Katrín M. Guðjónsdóttir hefur verið ráðin sem nýr sviðsstjóri markaðsmála hjá Men&Mice, hugbúnaðarfyrirtækisins sem áður hét Menn og mýs.

Um er að ræða nýja stöðu en félagið hyggst á markaðsdrifna sókn erlendis. Katrín er með MBA gráðu frá Háskóla Íslands ásamt BA í markaðsfræði og grafískri hönnun en hún hefur um 15 ára reynslu í markaðsmálum, vörumerkjastjórnun og viðskiptaþróun.

Áður starfaði Katrín sem framkvæmdastjóri markaðssviðs ALVA og sem markaðsstjóri olíufélaganna, Skeljungs og N1. Hún var markaðsstjóri hjá Innnes auk þess að starfa að markaðsmálum fyrir Símann. Katrín tók þátt í undirbúningi beggja olíufélaganna fyrir skráningu í kauphöll, og vann að mörkunarvinnu og heildarstefnumótun fyrir þau félög sem hún hefur starfað hjá. Katrín situr í stjórn Ímarks og er stjórnarformaður hjá Manino.

Hlutverk Katrínar hjá Men&Mice er að byggja upp nýtt markaðsteymi frá grunni, sækja aukna markaðshlutdeild beggja vegna Atlantshafsins og auka vörumerkjavirði almennt í alþjóðlegu umhverfi.

„Við erum mjög ánægð að hafa fengið Katrínu til liðs við okkur í Men&Mice teymið. Síðastliðin ár höfum við lagt mikla áherslu á vöruþróun en stefnum nú á að vera markaðsdrifið fyrirtæki. Reynsla Katrínar mun styrkja okkur mikið í komandi vegferð“ segir Magnús Eðvald Björnsson framkvæmdastjóri Men&Mice.