Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands, náði ekki endurkjöri í stjórn Icelandair Group, en stjórnarkjör félagsins fór fram á aðalfundi fyrr í dag. Katrín Olga hefur setið í stjórn félagsins frá árinu 2009.

Þá sótti Georg Lúðvíksson, forstjóri Meniga, ekki eftir endurkjöri, en hann sat í stjórn Icelandair Group í eitt ár.

Tveir nýir stjórnarmenn koma inn í stað Katrínar og Georgs, þau Heiðrún Jónsdóttir, lögmaður og stjórnarmaður í Íslandsbanka, og Guðmundur Hafsteinsson, sem leiðir vöruþróun hjá Google.

Aðrir stjórnarmenn í stjórn Icelandair Group eru Úlfar Steindórsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir og Ómar Benediktsson. Úlfar verður áfram formaður og Ómar varaformaður.

Katrín Olga seldi í september árið 2016 alls 400 þúsund hluti í Icelandair Group fyrir 9,6 milljónir króna. Í samtali við Viðskiptablaðið á þeim tíma greindi Katrín Olga frá því að hún ætlaði einfaldlega að nýta söluandvirðið til að fjármagna byggingu á sumarhúsi fjölskyldunnar. Hlutabréf í Icelandair tóku dýfu þann dag, enda var um að ræða sölu á hlut fruminnherja í félaginu á síðasta viðskiptadegi 3. ársfjórðungs, sem hefur sögulega verið stærsti og mikilvægasti fjórðungur Icelandair.

Stór hópur hluthafa var ósáttur með þá ákvörðun Katrínar Olgu að selja bréf sín á þessum tímapunkti. Til að mynda skrifaði Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, fjárfestir og hluthafi í Icelandair Grop, skoðanagrein í Fréttablaðið þar sem hún gagnrýndi Katrínu Olgu fyrir slæma stjórnarhætti vegna sölunnar.