Katrín Jakobsdóttir hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar kæru Ólafs Hauks Johnsons sem hann birti á hendur hennar í dag. Í kærunni segir Ólafur að Katrín hafi lekið trúnaðarupplýsingum til fjölmiðla þegar hún gegndi starfi menntamálaráðherra árið 2010.

Í yfirlýsingu sem að Katrín sendi frá sér rétt í þessu segir hún að kæran sé tilhæfulaus auk þess sem hún segir að ásakanir Ólafs um pólitíska aðför á hendur honum og Menntaskólanum Hraðbraut séu rangar. Það sé vegna þess að ákvörðun um að endurnýja ekki þjónustusamning við skólann hafi verið tekin á grundvelli skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd þjónustusamningsins og álits meirihluta menntamálanefndar Alþingis.

Katrín mun ekki tjá sig frekar um málið meðan það er til meðferðar hjá viðeigandi stofnunum ríkisins.