*

mánudagur, 20. janúar 2020
Frjáls verslun 20. ágúst 2019 10:02

Katrín Tanja tekjuhæsti íþróttamaðurinn

Katrín Tanja Davíðsdóttir var með 4,4 milljónir á mánuði í fyrra. Birkir Már Sævarsson var annar tekjuhæsti íþróttamaðurinn.

Ritstjórn
Katrín Tanja Davíðsdóttir hefur tvívegis farið með sigur af hólmi á CrossFit heimsleikunum.
Aðsend mynd

CrossFit stjarnan Katrín Tanja Davíðsdóttir, var tekjuhæsti íþróttamaðurinn hér á landi á síðasta ári. Katrín Tanja lenti á þriðja sæti á CrossFit heimsleikunum í fyrra. Hún er líklega vinsælasti Íslendingurinn á Instagram með 1,6 milljón fylgjendur.

Birkir Már Sævarsson, leikmaður Vals er annar á listanum yfir tekjuhæstu íþróttamennina. Birkir Már lék með íslenska karlalandsliðinu á HM í Rússlandi í fyrra og eins og frægt er fékk hann frí í vinnunni hjá Saltverki til að taka þátt á mótinu.

UFC bardagakappinn Gunnar Nelson er í þriðja sæti listans. Gunnar barðist einu sinni á síðasta ári, þegar hann lagði Alex Oliveira í Toronto í Kanada í desember. Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ er fjórða en Baldur Sigurðsson, verkfræðingur og leikmaður Stjörnunnar fimmti.

Tekjuhæstu íþróttamennirnir 2018 í þúsundum króna:

  1. Katrín Tanja Davíðsdóttir, íþrótak. CrossFit 4.447
  2. Birkir Már Sævarsson, knattspyrnum. Vals 2.905
  3. Gunnar Nelson, bardagaíþróttam. 1.860
  4. Líney Rut Halldórsdóttir, frkvstj. ÍSÍ 1.408
  5. Baldur Sigurðsson, knattspyrnum. í Stjörnunni 1.392

Útreikningar Frjálsrar verslunar byggja á útsvarsskyldum tekjur á árinu 2018 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Í launum sumra kann að vera falinn bónus vegna starfa á fyrri ára. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Sleppt er skattfrjálsum dagpeningum, bílastyrkjum og greiðslum í lífeyrissjóði.

Tekjublað Frjálsrar verslunar kom út í morgun. Finna má blaðið á helstu sölustöðum en einnig má panta eintak hér

Stikkorð: Tekjublað 2019