Áhugi á umhverfinu og málefnum líð­ andi stundar vöktu snemma áhuga hjá Katrínu Jakobsdóttur. Ung að aldri fór hún að huga að umhverfismálum og átta ára gömul velti hún mikið fyrir sér afleiðingum kjarnorkustríðs. Það kom því eflaust ekki mörgum á óvart að hún skyldi láta til sín taka í stjórnmálum en 25 ára gömul var hún orðin formaður Ungra vinstri grænna. Ferillinn í stjórnmálum hefur verið glæsilegur en hún var varaformaður Vinstri grænna frá 2003 til 2013. Í framhaldi tók hún við sem formaður flokksins.

Frá unglingsaldri segist Katrín hafa verið mjög félagslynd og segir félagsstörf eiga vel við sig. „Ég hef lengi verið rosalega virk í félagsmálum, hvort sem það var skólafélagið, stúdentapólitík eða húsfélagið. Eftir að ég kemst á unglingsárin verð ég mjög félagslynd en ég var ekki félagslyndur krakki. Síðan þá hef ég alltaf leitað í eitthvert félagsstarf.“

Félagsstörfin komu þó ekki niður á náminu en Katrín útskrifaðist úr Menntaskólanum við Sund árið 1996 með hæstu meðaleinkunn sem fengist hafði á stúdentsprófi.

„Ég var alltaf sjúklega samviskusöm sem er nú gjarnan talinn kvenlegur eiginleiki. Eftir framhaldsskóla fór ég og lærði frönsku í eitt ár og ætlaði aldeilis að slá í gegn í Frakklandi í framhaldinu. En það varð nú ekki. Ég skipti því yfir í íslensku, varð ástfangin og ákvað að vera hér heima á Íslandi frekar. Ég fann mig algjörlega í því námi og fannst það gríðarlega skemmtilegt. Þá komu ráðin sér vel, læra það sem manni finnst gaman.“

Hvenær fannstu fyrst fyrir áhuga á stjórnmálum?

„Ég var snemma áhugasöm um pólitík og er þannig alin upp. Ég hafði gríðarlegar áhyggjur af kjarnorkustríði sem barn. Það var sýnd mynd í sjónvarpinu þegar ég var átta ára um afleiðingar kjarnorkustríðs og fimbulvetur. Ég var alveg með þetta á heilanum eins og gerist stundum með börn, þau fá hluti á heilann. En ég var alltaf mikill friðarsinni og umhverfissinni. Það voru málin sem ég hafði áhuga á. Í dag sé ég það á mínum eigin börnum að þetta eru málin og fréttirnar sem hreyfa við þeim. Þetta eru stóru línurnar í heiminum, svo þrengist maður þegar maður eldist og fer að horfa meira á nærumhverfið. Ég held það hafi allir áhuga á pólitík að einhverju leyti, hún er alls staðar í umhverfi okkar. En sjálf ætlaði ég aldrei að fara í pólitíkina.“

Katrín er í ítarlegu viðtali í Eftir vinnu, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .