Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra vill að Íslendingar haldi áfram með krónuna, en innan enn strangari ramma en nú er að því er fram kemur í samtali við Bloomberg fréttastofuna. Jafnframt segir hún að ríkisstjórnin standi við áætlanir um að selja bankana.

Í viðtalinu er rætt um væntanlega skýrslu starfshóps um endurskoðun peningastefnunnar sem er að skoða fýsileika þess að vera með allt frá alveg fljótandi gengi á gjaldmiðlinum til fastgengisstefnu eða upptöku annars gjaldmiðils. Skýrslan hafi upphaflega átt að koma út í lok síðasta árs en nú á að skila henni í vor.

„Ríkisstjórn mín mun skoða allar tillögur starfshópsins, meðal annars hvort fasttenging krónunnar við annan gjaldmiðil sé valkostur,“ segir Katrín. „Mín persónulega skoðun er að við eigum að halda áfram að vera með krónuna, en innan strangari ramma en nú er.“

Vill að peningastefnunefnd tryggi stöðugleika krónunnar þrátt fyrir aukin ríkisútgjöld

Í greininni er svo vísað í það að mestöll gjaldeyrishöftin hafi verið afnumin á síðasta ári, en að jafnframt hafi Seðlabankinn reynt að stýra flæði hennar, til að mynda með innflæðishöftum í skuldabréfakaupum. Jafnframt segir Katrín í viðtalinu að stýrivextir hefðu getað farið hraðar niður og að peningastefnunefnd ætti að skoða „frekari leiðir til að stýra stöðugleika gjaldmiðilsins.“

Eins og Viðskiptablaðið hefur bent á hafa ýmsir aðilar verið til þess að gagnrýna aukin útgjöld ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur , formanns Vinstri grænna, einmitt því það dragi úr virkni peningastefnunnar og líkum á að hægt sé að lækka vexti.

Samt sem áður segir Katrín í viðtalinu að Íslendingar hafi lært af fortíðinni og sýni nú aðhald þrátt fyrir miklar launahækkanir og mikla eftirspurn á fasteignamarkaði. „Íslenska þjóðin hegðar sér öðruvísi og bankarnir hegða sér öðruvísi,“ segir Katrín.

„Til dæmis erum við ekki að sjá sama mikla vöxt í útgáfu bankalána eins og við sáum í aðdraganda síðasta hruns, og við erum að sjá aukinn sparnað.“

Vill selja bankana, halda verðbólgu niðri og tryggja stöðugleika á vinnumarkaði

Segir í greininni að hún ætli að standa við loforð um auknar innviðafjárfestingar á sama tíma og hún hyggist hafa í huga nauðsyn þess að halda verðbólgu niðri. Eins og fram hefur komið í Viðskiptablaðinu skaut verðbólgunni nánast upp í verðbólgumarkmið Seðlabankans í janúar, sem er í fyrsta sinn síðan í júlí 2014 sem verðbólgan hefur mælst jafnhá.

Jafnframt segir að ríkisstjórnin hyggist tryggja stöðugleika á vinnumarkaði með samtali milli ríkisstjórnar, verkalýðsfélaga og atvinnurekenda,  auk þess halda áfram með áætlanir um að selja eignarhluti ríkisins í bönkunum. „Við erum ekkert að flýta okkur, en það er markmið okkar og við munum gera það eins faglega og hægt er og alltaf með hagsmuni almennings í huga.“