Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur óskað eftir greinargerð frá bankaráði Seðlabanka Ísland um rannsókn á meintum brotum Samherja á gjaldeyrislögum. Í síðustu viku féll dómur í Hæstarétti þar sem fram kom að Seðlabankanum hafi verið óheimilt að sekta Samherja um 15 milljónir króna vegna ætlaðra brota á gjaldeyrislögum, meðal annars vegna þess að málið hafi áður verið fellt niður.

Í bréfi sínu til Gylfa Magnússonar, dósents og formanns bankaráðs Seðlabankans, kallar Katrín sérstaklega eftir upplýsingum um hvað hafi legið að baki ákvörðun Seðlabanka Íslands um að taka málið upp aftur og hvort og þá með hvaða hætti Seðlabanki Íslands hyggist bregðast við dómnum og hvort dómsniðurstaðan kalli á úrbætur á stjórnsýslu bankans og þá hvaða.. Katrín fer fram á svör í síðasta lagi föstudaginn 7. desember.

Þá bendir Katrín á að lög um Seðlabanka Íslands séu nú til heildarendurskoðunar í forsætisráðuneytinu. Stefnt sé að framlagningu frumvarps til nýrra heildarlaga um Seðlabanka Íslands á vormánuðum.

Í viðtali við RÚV um helgina sagði Katrín að málið hefði ekki áhrif á stöðu Más Guðmundssonar Seðlabankastjóra, sem lætur að störfum sem seðlabankastjóri á næsta ári þegar skipunartími hans líkur. Katrín sagði jafnframt að málið hefði fyrst og fremst tapast vegna formsatriða. Samherji segir þá túlkun forsætisráðherra ekki standast.