Tunnuverð á hráolíu fór yfir 70 Bandaríkjadali í dag, segir í frétt Financial Times. Olíuframleiðslugeta í Mexíkóflóa hefur dregist saman um 40% vegna fellibylsins Katrínar, samkvæmt fréttinni.

Fellibylurinn hefur einnig haft neikvæð áhrif á gengi hlutabréfa skráðra tryggingarfélaga. Einnig hafa hlutabréf samgöngufyrirtækja fundið fyrir fellibylnum og hækkun á olíuverði í kjölfar hans.

Verð á olíu hefur nú farið undir 70 dali eftir að hafa staðið hæst í 70,8 dölum. Olíuverð hefur hækkað um 60% á árinu.

Á föstudaginn leit út fyrir að fellibylurinn færi ekki yfir viðkvæmustu olíuframleiðslusvæðin og gaf olíuverð þá eftir, segir í Morgunkornum Íslandsbanka.

?Olíumarkaðurinn hefur verið mjög viðkvæmur fyrir neikvæðum fréttum undanfarið og því koma viðbrögðin nú ekki á óvart. Í kjölfar hækkunarinnar hefur hlutabréfaverð gefið eftir um allan heim, þar sem fjárfestar hafa áhyggjur af því að hærri orkukostnaður muni minnka hagnað fyrirtækja, en skuldabréf hafa hækkað í verði," segir í Morgunkornum.