Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, kom fyrst inn á þing í alþingiskosningunum árið 2003. Á sama tíma komu inn á þingið Björgvin G. Sigurðsson, sem síðar varð viðskiptaráðherra, og Ágúst Ólafur Ágústsson, sem síðar varð varaformaður Samfylkingarinnar.

Á þeim tíma má segja að þau þrjú hafi verið fulltrúar ungu kynslóðarinnar í Samfylkingunni.

Síðan þá hefur Ágúst Ólafur þó hætt afskiptum af stjórnmálum og farið utan í nám og Björgvin G. hefur tekið sér leyfi frá þingstörfum á meðan þingmannanefnd fer yfir stöðu hans í ljósi þess sem fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis þar sem hann var sagður sekur um vanrækslu í störfum sínum sem ráðherra.

Aðspurð um þetta segist Katrín viss um að Björgvin G. eigi eftir að koma sterkur inn í pólitíkina á ný en hún vonist jafnframt til þess að Ágúst Ólafur geri það líka þegar hann hefur lokið sínu námi.

„Þessir tveir eru einhverjir bestu félagar sem ég hef átt í stjórnmálum. Þeir eru heiðarlegir og vinnusamir og það er mikil synd að sjá á eftir þeim,“ segir Katrín í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið.

Þegar Katrín er spurð hvort henni hafi fundist Björgvin G. hafa notið sannmælis í störfum sínum sem Viðskiptaráðherra er svarið stutt og einfalt; „Nei, það finnst mér ekki.“

Hún segist þó vona að vinna þingmannanefndarinnar eigi eftir að leiða það í ljós.

„Mér fannst rannsóknarskýrslan gera það. En út af lagatæknilegum atriðum ákváðu menn að hann væri sekur um vanrækslu,“ segir Katrín.

„Það vakti líka upp mikið af spurningum í mínum huga um ráðherraábyrgð. Það þýðir það að nú þurfum við ráðherrar að fara miklu betur ofan í allt og stýra öllu sjálfir. En það er erfitt að sjá hvernig á að bregðast við því þegar hlutum var haldið frá honum og hann ekki látinn vita hvað var að gerast. Það er mjög lítið sem hann gat gert og erfitt að bera ábyrgð á því.“

En sú ákvörðun var nú tekin af fyrrv. formanni Samfylkingarinnar, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, skýtur blaðamaður inn í.

„Já já, það er eitthvað sem hún hlýtur að þurfa að svara fyrir og hún hlýtur að gera það frammi fyrir rannsóknarnefnd þingsins,“ segir Katrín.

„En hef verið þeirrar skoðunar að hann hafi ekki notið sannmælis fyrir störf sín en ég held reyndar að viðhorfið til hans hafi breyst mikið eftir útkomu rannsóknarskýrslunnar, þegar það er dregið saman hvernig þetta raunverulega var.“