Fæstir tengja saman uppgang á hlutabréfamarkaði og Ho frænda, leiðtoga þjóðernissinna og kommúnista í Víetnam. Sú staðreynd að hlutabréfamarkaðurinn í Ho Chi Minh-borg, sem er skírð eftir forsetanum, hefur hækkað um 249 prósent á síðustu þrettán mánuðum ætti hinsvegar að vera forsenda fyrir slíkum hugrenningatengslum. Hin gríðarlega mikla hækkun endurspeglar ekki eingöngu uppganginn í landinu, sem enn lýtur stjórn kommúnista sem hafa tekið markaðslögmálin í sátt, heldur einnig væntingar um framtíðarhorfur og mikinn áhuga erlendra fjárfesta á víetnamska hagkerfinu. Enda er slíkt ekki furðulegt í ljósi þeirrar staðreyndar að vöxtur hagkerfisins verður aðeins borinn saman við kínverska efnahagsundrið í samhengi þessa heimshluta.

Framgang víetnamska hagkerfisins má rekja til tveggja þátta. Árið 1986 voru hinar svokölluðu Doi Moi umbætur innleiddar, en í þeim fólst skref í átt að frjálsræði á kostnað samyrkju. Umbæturnar sköpuðu grundvöll fyrir að Víetnamar gátu notfært sér þá möguleika sem sköpuðust í kjölfar þess að samskiptin við bandarísk stjórnvöld komust í eðlilegan farveg og viðskiptabanni þeirra síðarnefndu var aflétt á tíunda áratug nýliðinnar aldar. Viðskiptatengsl ríkjanna urðu snemma mikil og þau uxu hratt. Árið 1994 námu þau 220 milljónum Bandaríkjadala. Áratug síðar voru þau komin 6,4 milljarða dala. Á sama tíma urðu Bandaríkjamenn umsvifamestu fjárfestarnir í Víetnam og bandarísk fyrirtæki, eins og Intel, Nike og Canon, komu sér upp verksmiðjum í landinu. Fleiri hafa fylgt í kjölfarið enda er vinnuafl og land ódýrt - jafnvel í samanburði við ríki eins og Kína. Það segir kannski meira en mörg orð um umbreytingu víetnamska hagkerfisins að í byrjun þessa árs varð Víetnam 150. ríkið sem fékk aðild að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO). Aðildin er vissulega til marks um að kommúnistarnir sem fara með völdin séu að gera eitthvað. Hún tryggir áframhaldandi umbætur sökum þeirra skilmála sem henni fylgja. Samfara mikilli aukningu í beinni erlendri fjárfestingu hafa lífsgæði íbúa landsins batnað mikið, og þrátt fyrir að meðalaldur landsmanna hafi hækkað hefur þeim sem búa við afkomu undir fátæktarmörkum fækkað um tvo þriðju á síðustu fjórtán árum.

Í ljósi þessa er ekki með öllu óskiljanlegt að hlutabréf hafi hækkað í verði í Víetnam að undanförnu. Ríkið hefur dregið verulega úr umsvifum sínum og selt hluti í fyrirtækum sem eru síðan skráð í kauphöllinni í borg Ho frænda, eða í höfuðborginni Hanoi. Það eru fyrst og fremst erlendir fjárfestar sem hafa knúið hinar miklu hækkanir áfram. Auðvelt aðgengi að ódýru fjármagni á alþjóðamörkuðum undanfarin ár hefur gert það að verkum að áhugi þeirra á þessum ört vaxandi markaði hefur verið meiri en ella. Þessi vaxandi áhuga hefur jafnframt verið knúinn áfram af væntingum um að stjórnvöld lyfti enn frekar takmörkunum á erlendri eignaraðild í fyrirtækjum. Til að mynda þurfa stjórnvöld í Hanoi að leyfa fjárfestingu í þjónustufyrirtækjum í kjölfar WTO aðildar. Fjárfesting í slíkum fyrirtækjum á tæplega níutíu milljón manna markaði sem fer ört stækkandi er vænleg í augum margra.
Hinar miklu hækkanir hlutabréfa endurspegla eðli málsins samkvæmt væntingar til víetnamska efnahagsundursins: hvort þær eru svo raunhæfar er önnur saga.

Þrátt fyrir mikinn vöxt í hagkerfinu blasir við að víða er pottur brotinn. Spilling í stjórnkerfinu er landlæg. Í byrjun síðasta árs varð uppvíst um milljón dollara fjárdrátt háttsettra embættismanna. Slík mál grafa undan trausti. Sérstaklega í ljósi þess að einkavæðing ríkisfyrirtækja er fjarri lokið. Hinsvegar benda hinir jákvæðu á að upp komst um málið.

En það er ekki eingöngu spillingin sem veldur mönnum áhyggjum. Íbúar landsins eru farnir að sýna fjárfestingum í hlutabréfum mikinn áhuga - enda skiljanlegt í ljósi hinna stjarnfræðilegu hækkana undanfarinna mánaða. Innlendum fjárfestum á hlutabréfamarkaðinum hefur fjölgað mikið á undanförnum árum. Áhugi Víetnama á hlutabréfum er orðinn slíkur að stjórnvöld eiga í basli með að fá opinbera starfsmenn til að hætta að glápa á hlutabréfavísitölur í beinni gegnum netið eða í sjónvarpi og einbeita sér þess í stað r að vinnu. Á dögunum neyddist stjórn seðlabankans til að banna starfsmönnum sínum formlega að fjárfesta í hlutabréfum meðan á vinnutíma stendur.

Áhuginn beinist sérstaklega að hlutabréfum á hinum svokallaða "gráa markaði." Víetnamar kaupa hluti í fyrirtækjum sem eru að mestu í eigu ríkisins í þeirri von að þau verði skráð á opinberan markað í náinni framtíð. Engin leið er að segja til um slíkt. Ljóst er að slíkir fjárfestar verða fyrst og verst fyrir barðinu á niðursveiflunni þegar hún á endanum kemur. Reyndar bendir margt til þess að stjórnvöld óttist að blaðran muni springa: Reglur um bankalán til hlutabréfakaupa hafa verið hertar og hugmyndir eru um að skuldbinda erlenda fjárfesta til þess að binda fé sitt í hagkerfinu í minnsta kosti eitt ár.