Viðskipti á aðalmarkaði Kauphallarinnar námu 3,1 milljarði króna í dag og úrvalsvísitalan hækkaði um 0,68%.

Tryggingafélögin leiddu hækkanir dagsins, en þar fór VÍS fremst í flokki með 3,85% hækkun í 292 milljóna króna viðskiptum. Icelandair náði öðru sætinu með naumindum með 3,49% hækkun í 270 milljóna viðskiptum – og hefur nú hækkað um 13,5% frá því fréttir af erfiðleikum Wow air byrjuðu um mánðarmótin – en fast á hæla flugfélagsins kom Sjóvá með 3,48% hækkun í 172 milljóna viðskiptum.

TM leiddi svo tryggingafélaga-vagninn með 2,99% hækkun í áberandi mestum viðskiptum dagsins upp á 534 milljónir króna.

Tvö félög lækkuðu lítillega í viðskiptum dagsins, Heimavellir um 0,81% í litlum 9 milljóna króna viðskiptum, og Origo um 0,77% í sáralitlum 800 þúsund króna viðskiptum.

Á eftir TM var mest velta með bréf Arion Banka, en 1% hækkun þeirra í morgun gekk til baka nú í eftirmiðdaginn, og bréfin enduðu daginn því óhreyfð frá opnunargenginu.