„Síðasta ár var metár hjá okkur hér í Kattholti, þegar verst var vorum við með 100 ketti hérna inni yfir sumartímann og 780 ketti yfir allt árið,“ segir Halldóra Björk Ragnarsdóttir, rekstrarstjóri Kattholts.

Halldóra Björk Ragnarsdóttir
Halldóra Björk Ragnarsdóttir

Hún segir alltaf nóg að gera hjá þeim og þær séu að fá frá tveimur og upp í sex óskilaketti á dag. Allur gangur er á því hvernig gangi að koma köttunum til eiganda sinna eftir að komið er með þá í Kattholt: „Sem betur fer fara einhverjir heim. Ef eigandi vitjar þeirra ekki þá auglýsum við þá hér á síðunni okkar og ef enginn gefur sig fram þá er fundið heimili fyrir köttinn,“ segir Halldóra Björk.

En hvað veldur þessari aukningu? „Það er auðvitað fjölgunin hjá köttunum. Allir kettir sem fara héðan eru örmerktir og teknir úr sambandi. Ef eigandinn finnst þá ráðleggjum við honum að láta taka köttinn úr sambandi. Við erum mjög harðar á þessu hérna í Kattholti,“ segir Halldóra Björk.

Halldóra Björk segir ketti vera óvenjumikið að týnast: „Ég held að þeir kettir sem eru að týnast séu þeir sem eru mikið einir heima allan daginn. Fólk fer kannski í vinnu snemma á morgnanna og kemur heim seint á daginn og kötturinn er kannski einn úti á meðan. Oft halda kettir sem búa við slíkar aðstæður að þeir hafi bara verið yfirgefnir og fara. Það hjálpar mikið til ef kettir eru örmerktir því þá finnum við eigandann.“

Á sumrin er mest að gera í Kattholti: „Júlí og ágúst eru verstu mánuðirnir. Þá fer fólk í burtu og lætur kannski einhvern líta til með kettinum. En það er ekki nóg að einhver komi einu sinni á dag ef fólk er í burtu í nokkrar vikur,“ segir Halldóra Björk og bætir við að í Kattholti er hótel fyrir ketti: „Í staðinn fyrir að skilja köttinn eftir einan heima þá má alveg koma með hann hingað á hótelið. Það er alltaf opið og ekki týnist kisan á meðan.“