Kaup á erlendum verðbréfum í apríl voru mikil samkvæmt tölum frá Seðlabankanum sem birtust í gær, að sögn greiningardeildar Glitnis.

Hrein kaup námu í mánuðinum rúmum 25,3 milljörðum króna en það er mun meira en var í sama mánuði fyrir ári síðan en þá fjárfestu innlendir aðilar nettó fyrir rúma 11,3 milljarðar króna.

Greiningardeildin segir að kaupin í apríl séu þau fjórðu mestu frá því að byrjað var að safna saman upplýsingum um þau árið 1994. Erlend verðbréfakaup hafa almennt verið mikil á árinu nema í mars en þá var nettó sala að andvirði rúmum 27,4 milljörðum króna.

?Stærstu fjárfestarnir í erlendum verðbréfum hafa verið lífeyrissjóðir en hlutur innlánsstofnana og fyrirtækja hefur vaxið með aukinni útrás þeirra," segir greiningardeildin.

Það var keypt fyrir um 2,2 milljarða króna af hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða í apríl og alls voru keypt skuldabréf fyrir um tæpa 3,3 milljarða króna.

Mest áhersla var á fjárfestingu í hlutabréfum eða 19,7 milljarða króna nettó. ?Það vekur athygli hversu hlutur hlutabréfa er stór í mánuðinum en það kann að skýrast að nokkru með því að innlánsstofnanir hafi verið að fjárfesta á tímabilinu," segir greiningardeildin.

Greiningardeildin segir að í það minnsta styðja tölur um stöðu þeirra í erlendum hlutabréfum það en hún jókst um rúma 23 milljarða króna eða um 11,5% í apríl. Á sama tíma lækkaði gengi krónunnar um rúm 8% og erlendar hlutabréfavísitölur hækkuðu um 1,2% (USA) og 0,2% (Evrópa).

"Ætla má að eitthvað dragi úr fjárfestingu lífeyrissjóða í erlendum verðbréfum með lækkandi gengi krónunnar. Telja má þó að fjárfesting þessi verði töluvert mikil áfram. Líklegt má telja að framhaldið muni mikið ráðast af því hversu mikill slagkraftur verður í útrás íslenskra fyrirtækja á erlenda markaði á komandi mánuðum."