Í tilkynningu sem umboðsaðili Merck á Íslandi hefur sent frá sér er tekið fram að hugsanleg kaup Actavis á samheitalyfjahluta þýska fyrirtækisins Merck KGaA munu ekki hafa nein áhrif á starfsemi frumlyfjafyrirtækisins Merck Sharp & Dohme á Íslandi.

Í tilkynningunni er tekið fram að þýska fyrirtækið Merck KGaA er ekki tengt alþjóða frumlyfjafyrirtækinu Merck & Co., Inc. sem hefur höfuðstöðvar sínar í New Jersey í Bandaríkjunum. Merck & Co., Inc. er móðurfélag lyfjafyrirtækisins rck Sharp & Dohme sem meðal annars hefur umsjón með markaðssetningu lyfja Merck & Co., Inc. á Íslandi og öðrum löndum Evrópu.