Kaupin Actavis á Alpharma Inc. eru að öllu leyti fjármögnuð með lántöku, en gert er ráð fyrir að tekjur sameinaðs fyrirtækis verði 1,3 milljarðar evra á næsta ári og EBITDA framlegð 19-20%. Miðað við uppgefnar upplýsingar gerir félagið því ráð fyrir að EBITDA verði á bilinu 247-260 milljónir evra en áður birt spá Greiningardeildar KB banka gerði ráð fyrir að EBITDA á næsta ári yrði 187 milljónir evra. Miðað við áætlanir félagsins verður meðal innri vöxtur sameinaðs félags á árunum 2004 - 2006 einungis 4,5%.

Í frétt félagsins í dag kemur fram að á árinu í ár verði vöxtur félagsins einungis undir 5% og EBTIDA framlegð 26%.

Greint var frá því fyrr í dag að Actavis hefði gengið frá kaupum á samheitalyfjastarfsemi Alpharma Inc. á 810 milljónir dollara. Í frétt frá Actavis kemur fram að með kaupunum sé félagið orðið eitt af fimm stærstu samheitalyfjafyrirtækjum heims. Kaupin styrkja verulega stöðu Actavis í Bandaríkjunum sem er stærsti lyfjamarkaður heims með um 50% af allri veltu. Eftir kaupin og kaup Actavis á Amide fyrr í sumar verður um 35% af veltu félagsins í Bandaríkjunum segir í Hálffimm fréttum KB banka.

Velta Alpharma í fyrra nam 652,5 milljónum evra og EBITDA nam 50,3 milljónum evra eða 7,7% af tekjum. Á fyrrihluta þessa árs eru tekjurnar orðnar 378,9 milljónir evra og EBITDA 49,6 milljónir evra eða 13,1% af tekjum.