Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka telur að kaupin á tryggingarfélaginu Verði munu ekki klárast fyrir sumar, eins og áætlanir stóðu til um. Í stað þess munu kaupin líklega klárast eftir sumarið en beðið er eftir samþykki stjórnvalda fyrir kaupunum.

Tilkynnt var um söluna í október sl. en þá keypti Arion banki 51% hlutafjár í Verði af BankNordik. Bank Nordik átti fyrir allt hlutafé í Verði, en keypti 51% þess í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans sem er bundin fram í júní 2017. Samhliða sölunni var gert samkomulag sem heimilar Arion banka að kaupa 49% af útistandandi hlutum eigi síðar en á árinu 2017.

Samkvæmt tilkynningu frá BankNordik frá 19. janúar var gert ráð fyrir því samþykki stjórnvalda myndi liggja fyrir á fyrri hluta þessa árs. Höskuldur telur að sú áætlun muni ekki standast.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá birti Vörður sína bestu afkomu frá upphafi í dag. Tryggingafélagið hagnaðist um 658 milljónir króna á síðasta ári eftir skatta samanborið við 385 milljóna króna hagnað árið 2014.