Kaup danska byggingavörurisans Bygma á Húsasmiðjunni munu ekki hafa áhrif á opnun Bauhaus hér á landi. Þetta segir Halldór Óskar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Bauhaus. „Nú liggur fyrir við hvern við erum að keppa,“ segir Halldór Óskar í samtali við Viðskiptablaðið og vísar til þess að með kaupum Bygma sé eignarhaldið á Húsasmiðjunni orðið ljóst.

Þá segir Halldór Óskar að Bauhaus og Bygma hafi lengi háð samkeppni í Danmörku. Enn er stefnt að opnun Bauhaus við Vesturlandsveg í vor. Að sögn Halldórs Óskars er búið að ráða í allar stjórnunarstöður hjá fyrirtækinu en um 450 umsóknir bárust þegar auglýst var eftir stöðum fyrr í haust. Þá er stefnt að því að auglýsa eftir almennu starfsfólki nú í janúar.