Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings banka, segir að kaup Danske Bank á finnska bankanum Sampo Bank hafi engin áhrif á fyrirætlanir Kaupþings banka um frekari útþenslu bankans.

?Þetta er klárlega hluti af samþjöppun á þessum bankamarkaði en hvort þetta hefur áhrif á frekari samþjöppun er miklu meiri óvissa um. Ég held að menn eigi frekar að líta á þetta sem einstök viðskipti þar sem stór danskur banki kaupir góðan finnskan banka. Hvort þetta hefur áhrif á önnur viðskipti held ég að sé allt of snemmt að segja til um,? sagði Sigurður.

Danske Bank kaupir Sampo Bank fyrir 30,1 milljarða danskra króna eða ríflega 350 milljarða króna. Þetta eru dýr kaup þegar margfaldarar eru skoðaðir, segja sérfræðingar. Danske Bank greiðir 3,5 sinnum bókfært verð fyrir Sampo en til samanburðar greiddi Kaupþing banki 1,5 sinnum bókfært verð fyrir FIH. Ljóst er að bankar á Norðurlöndum hafa hækkað í verði.

Hluti af stefnu Kaupþings banka undanfarin ár hefur verið að fjárfesta í norrænum fjármálafyrirtækjum. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins á Kaupþing banki einhver hlutabréf í Sampo Bank en á tímabili voru vangaveltur um það hvort að Kaupþing keypti Sampo eða hreinlega hvort Sampo tæki yfir Kaupþing banka.

Aldrei kom þó til þess að Kaupþing þyrfti að flagga stöðu í Sampo banka og því freistandi að ætla að bankinn hafi aldrei farið yfir 5% viðmiðin. Heimildir Viðskiptablaðsins herma einnig að fjöldi Íslendinga hafi fjárfest í Sampo þegar fréttist af meintum áhuga Kaupþings banka. Þeir munu væntanlega vera að uppskera nokkurn hagnað.

Danske Bank kaupir Sampo banka af Sampo Group sem skráð er í finnsku kauphöllina. Bréf félagsins hækkuðu um 12% við tilkynninguna.