Viðskiptavakt Landsbankans með eigin hlutabréf skapar hagsmunaárekstra og eykur hættuna á markaðsmisnotkun. Þetta kemur fram í ákæru embættis sérstaks saksóknara á hendur sex fyrrverandi starfsmönnum bankans.

Fram kom í ítarlegu viðtali við Sigurjón Þ. Árnason , fyrrverandi bankastjóra gamla Landsbankans í fréttum Stöðvar 2 í gær að Landsbankinn hafi verið viðskipavaki með eigin hlutabréfum um langt skeið, í raun löngu áður en hann hafi komið til starfa hjá bankanum, sem hafi oft átt mikið magn eigin bréfa. Bankinn átti á tímabili 47% eigin hlutabréfa áður en hann fór í þrot.

Sigurjón vísaði því á bug í viðtalinu að nokkuð óeðlilegt hafi verið við hlutabréfakaupin. Starfsmenn eigin viðskipta Landbankans hafi aðeins verið að sinna vinnu sinni.

Visír segir að í ákæru embættis sérstaks saksóknara á hendur Sigurjóni og fimm öðrum fyrrverandi starfsmönnum gamla Landsbankans sé skýringum Sigurjóns hafnað. Þar segir að útgefandi hlutabréfa geti samið við annað verðbréfafyrirtæki um að taka að sér viðskiptavakt með hlutabréfin. Það eigi að tryggja með kaupum og sölum á bréfunum að eðlilegt verð á þeim myndist á markaði. Viðskiptavaki leitist við að aðlaga tilboð sín þar til jafnvægi hafi náðst og það magn bréfa sem hann kaupi eigi að vera nokkurn veginn til jafns við það magn sem hann selur.

Í tilviki Landsbankans voru sett margfalt fleiri kauptilboð en sölutilboð í hlutabréf bankans.