Norsk samkeppnisyfirvöld höfnuðu í dag kaupum Eimskips á norska flutningafyrirtækinu Nor Lines AS. Ekkert verður að kaupunum. Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

Niðurstaðan hefur ekki áhrif á afkomuspá félagsins þar sem að áhrif mögulegra kaupa Eimskips á Nor Lines voru ekki tekin með í reikninginn í afkomuspá ársins 2017. Kostnaður Eimskips á árinu 2017 vegna verkefnisins er áætlaður 300 þúsund evrur eða því sem jafngildir 36,4 milljónum króna ef tekið er mið af gengi dagsins í dag.

„Eimskip mun leita annarra leiða til að þróa og efla frekar starfsemi sína í Noregi, viðskiptavinum til hagsbóta. Hefðu þessi kaup á Nor Lines gengið eftir hefði það leitt til öflugri þjónustu við inn- og útflytjendur á norska markaðinum,“ segir í tilkynningu frá félaginu.

Haft er eftir Gylfa Sigfússyni, forstjóra Eimskips í tilkynningunni að þessi niðurstaða sé félaginu mikil vonbrigði þar sem norsk samkeppnisyfirvöld horfðu mjög þröngt á markaðinn og telja Eimskip vera markaðsleiðandi í flutningum á frystum fiski í Norður Noregi. „Ég tel að samkeppnisyfirvöld hafi gert mistök með þessari þröngsýnu ákvörðun sinni,“ bætir Gylfi við.