Slitastjórn Glitnis kærði í janúar veitingu fjögurra milljarða króna bankaábyrgðar vegna kaupa á Williams Formúlu 1-liðinu sumarið 2008 til sérstaks saksóknara vegna rökstudds gruns um umboðssvik. Engir einstaklingar eru sérstaklega kærðir heldur er þess óskað að embættið rannsaki málið í heild. Er greint frá þessu í Fréttablaðinu.

Málið snýst um það að árið 2007 gerir Jón Jón Ásgeir Jóhannesson, þá forstjóri Baugs og einn aðaleigenda Glitnis, samkomulag um að bresk félög í eigu Baugs gerðust styrktaraðilar Williamsliðsins í desember 2007. Í janúar 2008 gerði hann síðan samning, í nafni dótturfélags Baugs að nafni Sports Investments, um að kaupa stóran hlut í Williams-liðinu. Jón Ásgeir gekk í persónulegar ábyrgðir fyrir þessum kaupum.

Í ágúst 2008 kynnti Lárus Welding, þá forstjóri Glitnis, fyrir áhættunefnd bankans að Sports Investments væri að leita að 20 milljóna punda, fjögurra milljarða króna, bankaábyrgð til að kaupa hlut í og gera styrktarsamninga við Williams-liðið. Sports Investments var á þessum tíma eignalaust félag.

Í frétt Fréttablaðsins segir þó að kynningin hafi verið til málamynda þar sem Lárus Welding og Magnús Arnar Arngrímsson, þá framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Glitnis sem sat einnig í áhættunefnd bankans, höfðu samþykkt veitingu ábyrgðarinnar daginn áður en hún fór fram. Með þessum gerningi var ábyrgð á upphæðinni velt yfir á Glitni.