„Við höfum varað við frekari samþjöppun á fjármálamarkaði sem felur í sér einhvers konar samruna við stóru bankana þrjá. Slík mál eru auðvitað skoðuð og tekin fyrir hvert fyrir sig eins og þau eru lögð fyrir eftirlitið,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirltins.

Það gæti reynst erfitt fyrir Framtakssjóðinn að fá samþykkt kaup á eignarhlut í annaðhvort Arion banka eða Íslandsbanka sem sjóðurinn hefur verið að skoða. Landsbankinn er stærsti eigandi Framtakssjóðsins með 27,5% hlut og því myndu kaup sjóðsins á öðrum bankanna væntanlega koma til umfjöllunar Samkeppniseftirlitsins.

Um þetta segir Páll Gunnar:

„Það er ekki hægt að svara án rannsóknar öllum hugsanlegum útfærslum á því, en eitt er víst að samrunar á fjármálamarkaði munu koma til skoðunar eftirlitsins. Síðan kunna eignatengsl á milli fyrirtækja líka, ef ekki er um samruna að ræða heldur um annars konar eignatengsl, að koma til skoðunar á grundvelli samkeppnislaga. Einfaldlega vegna þess að slík eignatengsl geta brotið í bága við 10. grein samkeppnislaga sem bannar hvers lags samráð. Það má minnast þess að Samkeppniseftirlitið beitti íhlutun vegna eignatengsla Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur á sínum tíma.“

Páll Gunnar segir enn fremur að áður hafi komið fram, til að mynda í forsendum ákvarðana um núverandi eignarhald Arion banka og Íslandsbanka, að eftirlitið ætli að fylgjast vel með eignarhaldi fjármálafyrirtækja á Íslandi og frekari samþjöppun á þeim markaði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.