Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, beindi fyrirspurn til fjármálaráðherra í utan dagskrárumræðu á Alþingi um þátttöku lífeyrissjóðanna í atvinnulífinu og kaup Framtakssjóðsins á Vestia, eignarhaldsfélagi Landsbankans.

Óli Björn gagnrýndi söluferlið, þar hafi ekki verið farið eftir vinnureglum bankans. Þar sé því heitið að gagnsæi og jafnræði sé gætt meðal fjárfesta. Hann sagði kaupin ekki í sátt við þjóðfélagið heldur þvert á móti.

Þá telur hann að viðskiptin séu á kostnað lífeyrissjóðsfélaga og skerði lífeyrisgreiðslur í framtíðinni. „Þetta er líkt og að pissa í skóinn, manni hitnar í smástund en síðan kemur ofkælingin,“ sagði Óli Björn.

Óli Björn vill herða fjárfestingarkröfur lífeyrissjóðanna og draga þannig úr áhættu þeirra. Hann vill einnig endurskoða lífeyrissjóðina og auka áhrif sjóðsfélaga. Þannig sé stuðlað að auknu lýðræði.

Starfa samkvæmt lögum

Í svari fjármálaráðherra kom fram að lífeyrissjóðirnir starfi samkvæmt lögum sem setji þeim skorður. Þeir hafi almennt staðið fyrir sínu og náð sinni fyrri stærð að nýju.

Steingrímur sagði að lífeyrissjóðirnir 16 hafi stofnað Framtakssjóðinn og að samkvæmt reglum hans eigi að vanda til verka. Þeir fjárfesti í öllum greinum og í fyrirtækjum sem eiga sér vænlegan rekstrargrunn. Fjármálaráðherra er sammála því að lífeyrissjóðir komi að slíkum fyrirtækjum en framganga þeirra sé þó ekki hafin yfir gagnrýni.

Steingrímur benti á að það sé Bankasýslu ríkisins að fylgjast með verklagsreglum bankanna og að þeim sé fylgt. Samkvæmt lögum sé fjármálaráðherra bannað að skipta sér af þeim.