Fjármálaeftirlitið (FME) kærði í gær meinta markaðsmisnotkun Landsbankans til sérstaks saksóknara. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Segir að kæran sé af sama tagi og sú sem FME sendi vegna meintrar markaðsmisnotkunar Kaupþings fyrir um ári síðan. Í kjölfarið sátu æðstu stjórnendur Kaupþings í gæsluvarðhaldi.

Samkvæmt heimildum Rúv var í tilviki Landsbankans um að ræða sýndarviðskipti fyrir tugi milljarða króna sem teygja anga sína út fyrir landssteinanna, hugsanlega til Lúxemborgar og Tortóla.

Kaup Imon og dótturfélags í Lúxemborg stærstu viðskiptin

Í rannsóknarskýrslu Alþingis er sagt frá stærstu viðskiptum með hlutabréf Landsbankans frá miðju ári 2007 fram til fall bankans árið 2008. Stærstu viðskiptin eru tvenn kaup félagsins Imon ehf fyrir samtals rúmlega 9 milljarða króna. Alls keypti Imon ehf 450 milljónir hluta í viðskiptunum.

Þá keypti félagið Azalea Resources Ltd 199 milljónir hluta fyrir 3,8 milljarða króna sama dag og Imon kaupir bréf í seinna skiptið. Þau kaup voru þann 3. nóvember 2008 en Imon keypti fyrri hlutann 30. september 2008.

Líkt og í tilfelli Kaupþings fór mikið af viðskiptum með hlutabréf í Landsbankanum í gegnum dótturfélag Landsbankans í Lúxemborg. Í skýrslu rannskóknarnefndar Alþingis segir að ekki liggi fyrir upplýsingar um hverjir raunverulegir eigendur bréfanna eru og þ.a.l. ekki vitneskju um hugsanlega lánafyrirgreiðslu vegna kaupanna.

Stærstu viðskipti með bréf Landsbankans í gegnum dótturfélag í Lúxemborg eru gerð 30. nóvember 2008 þegar keyptir eru 210 milljónir hluta fyrir um 4,5 milljarða króna.