Íslandsbanka barst samþykki norska fjármálaráðuneytisins, mánudaginn 29. nóvember 2004, fyrir kaupum á norska bankanum Kredittbanken. Um leið hafa öll skilyrði fyrir kaupum á Kredittbanken verið uppfyllt. ?Við erum mjög ánægð með að kaup okkar á Kredittbanken hafi verið samþykkt. Við stefnum á að mynda öfluga norsk-íslenska bankasamstæðu og nú hefur fyrsti hornsteinninn verið lagður. Næsta skref eru kaupin á BNbank, þar sem við höfum gert tilboð upp á 340 norskar krónur á hlut," segir Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka í tilkynningu frá félaginu.

Með samþykki norska fjármálaráðuneytisins eignaðist Íslandsbanki þá 42.703.717 hluti, sem fengist höfðu í gegnum samþykktir á formlegu tilboði í Kredittbanken ASA. Að meðtöldu því hlutafé sem þegar var í eigu Íslandsbanka á Íslandsbanki samanlagt 47.461.257 hluti, sem jafngildir 99,58% hlutafjár í Kredittbanken. Kaupin og vaxtagreiðslur til hluthafa vegna samþykktar á tilboðinu verða gerð upp við hvern hluthafa 1. desember og mun Kredittbankinn verða tekinn inn í samstæðureikningsskil Íslandsbanka frá og með þeim tíma.

Íslandsbanki mun á næstu dögum í samræmi við norsk verðbréfalög leggja fram lokatilboð á genginu 7,25 til handhafa 0,42% hlutafjár í Kredittbanken sem enn hafa ekki samþykkt tilboð Íslandsbanka. Samhliða mun Íslandsbanki fara fram á innköllun þeirra hluta sem eftir eru í KredittBanken í samræmi við lög um hlutafélög í Noregi. Tilboðstímabilið er frá 6. desember til 3. janúar 2005. Tilboðsverðið er í samræmi við hæsta verð sem Íslandsbanki hefur greitt fyrir hlutabréf í KredittBanken undanfarna sex mánuði.

Í framhaldi af lokatilboði og innköllun hlutabréfa mun hluthafafundur í KredittBanken taka ákvörðun um að óska eftir afskráningu hlutabréfa félagsins af Kauphöllinni í Ósló. Stefnt er að því að slík umsókn verði send fyrir áramót.