„Það er stóráfall fyrir sparisjóðina í heild sinni að þetta skuli gerast,“ segir Geirmundur Kristinsson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Keflavíkur, aðspurður um afstöðu hans til þess að Kaupþing eignist meirihlutann í Sparisjóði Mýrasýslu.

Hann kveðst telja að Kaupþing hafi komið að málinu sem einhvers konar ráðgefandi aðili, en síðan stigið óvænt inn í eigendahópinn.

Hann segir að það hafi komið sér mjög á óvart að heyra að stjórn Sparisjóðs Mýrasýslu hefði ákveðið að ganga til samninga við Kaupþing um að bankinn skráði sig fyrir ríflega 1,7 milljarði af 2 milljarða króna stofnfjáraukningu Sparisjóðs Mýrasýslu.

Á borgarafundi um stöðu Sparisjóðs Mýrarsýslu í fyrrakvöld kom fram hjá Gísla Kjartanssyni sparisjóðsstjóra að leitað hafði verið til Landsbankans, Sparisjóðs Keflavíkur, Byrs og Saga Capital, áður en leitað var til Kaupþings um þátttöku í stofnfjáraukningu.

„Við gerðum tilboð sem ekki var gengið að, þó að ég viti ekki hvað stóð í veginum, og eina sem við fengum að vita var að Kaupþing myndi kaupa stofnféð. Þetta kom mér í opna skjöldu og ég fékk engin svör við því af hverju þetta var gert með þessum hætti. Ég átti ekki von á því,“ segir Geirmundir.

„Ég veit ekki alveg hvernig Kaupþing kom að þessu máli upphaflega en mér skilst að þeir hafi verið einhvers konar ráðgjafar eða milligönguaðilar fyrir Sparisjóð Mýrasýslu þegar hann var að leita að leiðum úr slæmri stöðu, en það fer síðan svo að þeir kaupa stofnféð. Þetta er ekki ósvipað því að maður fái fasteignasala til að selja húsið sitt og það næsta sem gerist er að hann kaupir það. Menn verða undrandi þegar slíkt gerist.“

Geirmundur kveðst ekki geta dæmt um hvort tilboð Kaupþings hafi verið betra en tilboð Sparisjóðs Keflavíkur.