Kvika banki verður eini eigandi Netgíró með kaupum á 80% hlut í félaginu sem fyrirtækið tilkynnti um í dag að væru frágengin, en í afkomuspá fyrir komandi ár er gert ráð fyrir að kaupin hafi jákvæð áhrif á afkomu ársins.

Viðskiptablaðið sagði frá viljayfirlýsingu félaganna um kaupin í sumar , en þá átti bankinn fyrir 20% í félaginu, sem tapaði 225 milljónum fyrir skatta í fyrra, og 523 milljónum árið 2018.

Í nóvemberlok samþykkti Samkeppniseftirlitið viðskiptin og sagði litla skörun vera á viðskiptamannahópum og starfsemi fyrirtækjanna. Seljandinn er Alva Holding ehf., sem er að mestu í eigu Skorra Rafns Rafnssonar stjórnarformanns félagsins.

„Þetta eru ánægjuleg tímamót fyrir Netgíró sem styrkist í sessi með þessum kaupum,“ segir Skorri Rafn sem segist óska félaginu velfarnaðar á komandi árum. „Um leið eru kaup Kviku á Netgíró staðfesting á því góða starfi sem unnið hefur verið hjá fyrirtækinu frá stofnun af því afburða starfsfólki sem þar starfar.“

Heildarhlutdeild Kviku og Netgíró á markaði fyrir einstaklingslán var í samrunaskrá félaganna sögð lítil, eða um 0 til 5%, hvort um sig, sem sé lítið miðað við það sem samrunaaðilarnir kalla yfirburðarstöðu stóru viðskiptabankanna þriggja.

Kvika segir kaupin vera í samræmi við þá stefnu bankans að nýta tæknilausnir til þess að nútímavæða fjármálaþjónustu. Netgíró hafi lagt áherslu á þróun á lánshæfismati ásamt því að bjóða raðgreiðslur með einföldum hætti. Áður hafi bankinn sett fjártækniþjónustuna Auði á laggirnar með góðum árangri.

Kvika segist jafnframt hafa átt farsælt samstarf við Netgíró á undanförnum árum, meðal annars varðandi fjármögnun á kröfusafni félagsins. Kaupin gera bankanum kleift að efla enn frekar þetta samstarf sem leiðir til aukinnar skilvirkni og hagræðingar hjá báðum aðilum. Netgíró er nú á tæplega 3.000 sölustöðum á landinu og tæplega 50.000 einstaklingar eru í viðskiptum við fyrirtækið.

Bankinn mun birta afkomuspá fyrir árið 2021 þann 28. janúar næstkomandi. Í spánni er gert ráð fyrir að kaupin á Netgíró hafi jákvæð áhrif á afkomu ársins en stefnt er að því að þau áhrif aukist töluvert þegar horft er til næstu ára.

„Fjármálakerfi landsins er að breytast og samkeppni að aukast. Kvika ætlar að vera fjármálafyrirtæki sem nýtir nýjustu tæknilausnir til þess að þjónusta viðskiptavini,“ segir Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku.

„Með kaupum á Netgíró er bankinn vel í stakk búinn til að auka umsvif sín í fjármögnun á vörukaupum. Jafnframt eru mikil tækifæri fólgin í að nýta innviði Netgíró til þess að útvíkka þjónustu félagsins.“